„Meistari myrkursins“ – það var viðurnefnið sem austurríski kvikmyndaleikstjórinn Fritz Lang fékk.

 

Hér sjáum við magnað viðtal sem bandaríski leikstjórinn William Friedkin (þekktastur fyrir The French Connection og The Exorcist) tók við átrúnaðargoð sitt Lang, árið 1975.

 

 

Fritz Lang var fæddur í Vínarborg árið 1880 – sem þá var höfuðborg Austurríkis-Ungverjalands, hins gleymda stórveldis í Evrópu sem virðist svo fjarlægt okkur nútímamönnum.

 

Í hinu mikla umróti í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar var Austurríki-Ungverjaland lagt niður og Fritz Lang – sem hafði lært myndlist í Vínarborg og París – flutti til Berlínar sem þá tilheyrði hinu nýja Weimar-lýðveldi í Þýskalandi.

 

Þar sneri hann sér að kvikmyndalistinni og varð með árunum þekktur um allan heim fyrir dimmar, þöglar kvikmyndir, en framtíðarmyndin klassíska Metropolis frá 1927 var dýrasta kvikmynd sögunnar þegar hún kom út. Spennumyndin M frá 1931 var fyrsta talmynd Fritz Lang og teljast þessar tvær til þekktustu meistaraverka hans.

 

Úr meistaraverkinu „Metropolis“.

En þegar þar kom við sögu voru óveðurskýin að hrannast upp í Þýskalandi. Árið 1933, sama ár og Hitler komst til valda, sendi Lang frá sér myndina Das Testament des Dr. Mabuse. Áróðursmálaráðherrann Jósef Göbbels bannaði myndina sem varð til þess að Lang, sem var hálfur gyðingur, flúði til Bandaríkjanna þar sem hann bjó til æviloka, árið 1976.

 

Úr „M“ frá 1931.