Tímabilið frá áttundu til þrettándu aldar er oft kallað Gullöld íslams. Á meðan myrkar miðaldir geysuðu í Evrópu blómstraði menning og heimsveldi múslima. Sérstaklega hugvit og vísindi, íslamskir vísindamenn og fjölfræðingar varðveittu og byggðu á vísindaþekkingu fornaldar og gerðu síðan eigin merku uppgötvanir.

 

Einn slíkur fjölfræðingur var Al-Jazari, sem uppi var á 12. öld þar sem nú mætast landamæri Tyrklands, Sýrlands og Írak, og var líklegast Kúrdi að ætterni. Al-Jazari fékkst við stærfræði, verkfræði og fleira og var jafnframt hæfileikaríkur málari. Hann er þó þekktastur fyrir hugvitssamlegar en furðulegar uppgötvanir — frá risastórum skrautklukkum og tevélmennum til heimsins fyrsta trommuheila.

 

Síðasta verk Al-Jazaris fyrir andlát sitt árið 1206 var að safna saman fimmtíu uppfinningum sínum í bók. Í bókinni eru leiðbeiningar um smíði tækjanna og litríkar teikningar eftir uppfinningamanninn sjálfan. Hérna að neðan eru nokkrar af þessum skrautlegu uppfinningum, en fyrir forvitna má finna nánari útlistanir á því hvernig þær virkuðu hér á Wikipedíu.

 

Handþvottalaug sem sturtað getur niður óhreina vatninu.

 

Vatnsknúin vélmenna-hljómsveit. Líklega var hægt að stilla taktinn sem hljómsveitin spilaði, þannig að það mætti kalla þetta fyrsta trommuheilann.

 

Kertaklukka.

 

Páfuglskrani, einnig til handþvotta. Þegar togað var í spotta helltist vatn úr goggi páfuglsins, síðan birtist litla vélmennið í miðjunni með sápu í skál. Svo kom önnur vera með hreint handklæði.

 

Vélstúlka sem hellir í tebolla.

 

Fílaklukkan.

 

 

Hin mikilfenglega fílaklukka er án efa frægust af uppfinningum Al-Jazari. Slíka klukku er nú að finna í verslunarmiðstöð einni í Dubai. Í þessu myndbandi má sjá hvernig klukkan virkar:

 

Vídjó