Illugi Jökulsson á afmæli í dag, 13. apríl, rétt eins og írska skáldið Samúel Beckett. Árið 1981, þegar Illugi var 21 árs og starfaði sem blaðamaður á Helgar-Tímanum, skrifaði hann Beckett.

 

„Mér datt í hug að biðja Beckett um viðtal, þótt ég vissi fullvel að hann væri svo einrænn og hlédrægur að hann hefði ekki veitt nema innan við tug viðtala um ævina og þá aðeins blaðamönnum sem hann þekkti mjög vel. Það virtist vonlítið fyrir kornúngan græningja onaf Íslandi að fara fram á viðtal, þótt ég þættist þá þegar orðinn afar mikill sérfræðingur í verkum hans.

 

En ég hafði afmæl­is­dag­inn eins og tromp uppí erm­inni, því ég hafði lesið í nýút­kom­inni ævisögu Becketts að hann væri mjög ánægður með afmæl­is­dag­inn sinn, ein­sog allir sem fæddur eru 13. apríl hljóta að vera.

 

Og í bréfi sem ég skrif­aði Beckett áður en ég fór af landi brott til að biðja um við­talið — og stíl­aði á útgáfu­fyr­ir­tækið hans í París, því eng­inn fékk nátt­úr­lega að vita nákvæm­lega hvar maður svo sér­lega fáskipt­inn ætti heima — í bréf­inu lét ég þess getið pje-​​ess að það vildi svo skemmti­lega til að ég deildi með honum afmæl­is­deg­inum og væri bara takk fyrir býsna ánægður með það.“

 

Og írski Nóbelsverðlaunahafinn skrifaði honum til baka, ótrúlegt nokk. Þeir mæltu sér mót í París, en þangað fór Illugi í sumarfríinu þetta herrans ár, 1981. Beckett vildi ekki veita viðtal – hann veitti nánast aldrei viðtöl – heldur yrði fundur þeirra „a strictly private talk“, persónulegar samræður eingöngu.

 

Illugi skrifaði síðan grein um stefnumót þeirra í Helgar-Tímann haustið 1981, uppfullur af æskumóði. Um 15 árum seinna rifjaði hann aftur upp kynnin af Beckett í annarri grein, þar sem hann skoðaði líka sín eigin skrif frá því 1981.

 

 

Beðið eftir Beckett

eftir Illuga Jökulsson

 

Ég vil taka það fram að ég var farinn að lesa Samúel Beckett mér til óbóta – þennan írska meginsnilling tuttugustu aldar, sem í bæði leikritum og skáldsögum túlkaði fánýti tilverunnar sterkar en nokkur annar hefur gert fyrr og síðar – fánýtið en þó um leið ódrepandi hvöt mannsins til að halda samt áfram, gefast aldrei upp, þó maður sé löngu búinn að gefast upp – þetta túlkaði Beckett snilldarlega í leikritum einsog Beðið eftir Godot, þarsem söguhetjurnar eyða tímanum við að bíða eftir hinum dularfulla Godot sem aldrei kemur, og Endatafli þar sem söguhetjurnar svonefndu eyða tímanum við það eitt að eyða tímanum – ég var semsagt farinn að lesa þennan merkilega en dálítið erfiða höfund mér til óbóta löngu áður en ég komst að því að við ættum sama afmælisdag – þann 13. apríl.

 

Beckett fæddist þann 13. apríl árið 1906, sem þá bar uppá föstudaginn lánga, en ég þann 13. apríl árið 1960, sem bar nú bara uppá ómerkilegan miðvikudag ef mig misminnir ekki.

 

En þetta vissi ég ekki þegar ég byrjaði að lesa Beckett á ofanverðum táningsárum, en þegar ég komst að því þótti mér það náttúrlega ekkert verra, og þessi staðreynd varð svo til þess að ég fékk einu sinni stefnumót við Samúel Beckett í París og ætla að segja þá raunasögu hér á eftir.

 

Það er rétt að taka fram að frásögnin byggist að lángmestu leyti á grein sem ég skrifaði í Helgar-Tímann eftir að heim kom – og hún segir auðvitað ekki nema takmarkaða sögu um Samúel Beckett – því meiri um sjálfan mig. En þetta var alla vega árið 1981 og ég var þá ungur og sprækur blaðamaður á Helgar-Tímanum og ákvað að skreppa í sumarfríinu í rúma viku eða svo til Parísar, þar sem Samúel Beckett bjó seinni hluta ævinnar, eða spölkorn fyrir utan París svo allrar nákvæmni sé nú gætt.

 

Mér datt þá í hug að biðja Beckett um viðtal, þótt ég vissi fullvel að hann væri svo einrænn og hlédrægur að hann hefði ekki veitt nema innan við tug viðtala um ævina og þá aðeins blaðamönnum sem hann þekkti mjög vel. Það virtist vonlítið fyrir kornúngan græningja onaf Íslandi að fara fram á viðtal, þótt ég þættist þá þegar orðinn afar mikill sérfræðingur í verkum hans.

 

En ég hafði afmælisdaginn eins og tromp uppí erminni, því ég hafði lesið í nýútkominni ævisögu Becketts að hann væri mjög ánægður með afmælisdaginn sinn, einsog allir sem fæddur eru 13. apríl hljóta að vera.

 

Og í bréfi sem ég skrifaði Beckett áður en ég fór af landi brott til að biðja um viðtalið – og stílaði á útgáfufyrirtækið hans í París, því enginn fékk náttúrlega að vita nákvæmlega hvar maður svo sérlega fáskiptinn ætti heima – í bréfinu lét ég þess getið pje-ess að það vildi svo skemmtilega til að ég deildi með honum afmælisdeginum og væri bara takk fyrir býsna ánægður með það.

 

Það er ekki tekið fram í greininni í Helgar-Tímanum hvernig þetta var orðað, og þetta er eitt af því fáa sem ég man ennþá betur en stendur í greininni; ég sagðist láta þess getið að lokum að ég deildi með honum afmælisdeginum, „a fact in which I take considerable pride“, stóð í bréfinu til Becketts.

 

Ég var ánægður með orðalagið þá; núna skamma ég mín einna mest fyrir það.

 

Auðvitað skrifaði ég þetta bréf fyrst og fremst í bríaríi og bjóst alls ekki við að fá svar, en viti menn – daginn áður en ég hélt af landi brott í sumarfríið, þá barst bréf frá París á skrifstofu Helgar-Tímans og reyndist vera frá Samúel Beckett.

 

Beckett var aldrei margmáll maður og bréfsefnið hans var lítið pappaspjald, á við þrjá eldspýtustokka að stærð og með nafninu hans efst. Þar sagði hann – einsog ég vissi fyrir – að hann veitti ekki viðtöl, en ef ég ætti leið um París gætum við – ef ég kærði mig um – hist „for a strictly private talk“, eins og hann orðaði það. „Til persónulegra samræðna eingöngu,“ eða eitthvað á þá leið.

 

Mér leist nú að vísu ekki alveg á blikuna. Ég var bara tuttugogeins og gat ekki í fljótu bragði ímyndað mér hvað ég ætti að hafa við Samúel Beckett að segja, svona „strictly private“.

 

Ef ég hefði fengið að taka viðtal hefði ég getað sett mig í stellingar og pundað á hann fyrirfram ákveðnum spurningum – og í greininni í Helgar-Tímanum, þá tel ég upp fáeinar spurningar sem ég sagðist þá hefði getað lagt fyrir hann, fyrst og fremst grunar mig nú til að sýna töluverðan lærdóm minn í Beckett-fræðunum, svo sem: „Segðu mér, Mr. Beckett, eru Molloy og Moran einn og sami maðurinn? Og hvar lærði Mr. Ender að tefla skák?“ en þessir herramenn eru allir persónur í skáldsögum Becketts.

 

Skáldsögum sem fáir lásu þá og engir núna, nema fræðimenn í bekketskum fræðum.

 

En að þessu hefði ég þó getað spurt – en að sitja með Beckett og spjalla um daginn og veginn, svona prívat; það sá ég nú ekki alveg fyrir mér. Átti ég að fara að segja Beckett frá hugðarefnum mínum sem umsjónarmaður Helgar-Tímans eða spyrja hvort ég ætti að klára stúdentsprófið eða kvarta undan því að ég væri í straffi á Borginni? Eða spyrja hvernig mamma hans hefði það?

 

Það skal tekið fram að þessi síðastnefndu mögulegu umræðuefni eru ekki nefnd í greininni í Helgar-Tímanum; mér sveið það alltof sárt að vera í straffi á Borginni til að ég gæti þá haft það í flimtingum.

 

En afþví ég var semsagt ekki nema tuttuogeins og með allra hugdjarfasta móti um þær mundir, þá hugsaði ég með mér að það hlyti einhvern veginn að bjargast hvað við Beckett hefðum um að spjalla, ekki síst eftir að ég las í fyrrnefndri ævisögu hans að þótt hann léti vægast sagt afar lítið fyrir sér fara, og virtist stundum beinlínis forðast annað fólk, þá fylgdi sögunni að hann væri í fasi og framkomu hinn mesti öðlingur og höbbðingi heim að sækja – þó ég byggist nú reyndar ekki við að vera boðið heim til hans.

 

En ég þyrfti varla að óttast að hann beinlínis híaði á mig þótt ég stamaði kannski svolítið andspænis honum. Og því var það, að þegar ég var nokkru seinna kominn til Parísar, þá mannaði ég mig upp og ákvað að herma þetta „strictly private talk“ uppá Beckett.

 

Það má kannski skjóta því að til skemmtunar og fróðleiks að einu Íslendingarnir sem ég veit til þess að hafi svosem mikið sem séð Samúel Beckett, en að vísu ekki beinlínis hitt hann og allsekki talað við hann – þeir einu Íslendingar eru mínir eigin foreldrar. Það vildi þannig til að þau Jökull og Jóhanna voru einu sinni stödd í Dublin, þegar blásið var til Beckett-hátíðar í leikhúsinu, og meðal annars sýnt verkið Happy Days, eða Hamingjudagar, sem þau náðu sér í miða á.

 

Happy Days er ekki beinlínis hefðbundið leikrit, frekar en önnur verk Becketts: það liggur kona hálfgrafin í sandbing og talar látlaust í einn og hálfan tíma um allt og ekki neitt – en textinn þykir nú magnaður samt og þarna sátu Jökull og Jóhanna og skemmtu sér strax dável.

 

Þrátt fyrir að Beckett hafi verið einn af bestu sonum Írlands á tuttugustu öld var leikhúsið þarna í Dublin hins vegar ekki fullskipað að þessu sinni og ekki löngu eftir að leikritið hófst, þá kemur einn leikhúsgestur of seint og smeygir sér svo lítið ber á í autt sæti. Og það vill til að Jökull fer svolítið að virða hann fyrir sér, þennan síðkomna, og rekur þá allt í einu upp stór augu þarna í myrkrinu í salnum. Hnippir svo í konu sína og hvíslar: „Segðu mér, Jóhanna, er þetta ekki Samúel Beckett sjálfur sem þarna situr?“

 

Og þau fóru bæði að skima sem best gátu, maðurinn var hávaxinn, afar grannur, burstaklipptur, skarpleitur og hvassbrýndur, og gat sem best verið Beckett sjálfur.

 

En þau voru þó ekki alveg viss og hlökkuðu til að virða þennan mann betur fyrir sér þegar leiknum lyki og ljósin kviknuðu. En rétt áður en leiknum var loks lokið og málæði konunnar lauk, þá skaut þessi maður sér út og var allur á braut þegar birti í salnum.

 

Þau foreldrar mínir sannfærðust þá um að þarna hefðu séð Beckett sjálfan, sem ekki hefði viljað vekja á sér athygli, þótt hann langaði til að sjá leikritið sitt, og eftir að hafa lesið ævisögu hans, þá gat ég staðfest löngu seinna að einmitt svona hagaði Beckett sér gjarnan í leikhúsi – hlédrægur alveg fram í fingurgóma.

 

En með því að vera nú á leiðinni á fund Becketts mátti því líta svo á að ég væri að bæta fyrir vonbrigði foreldra minna, sem þótti súrt í broti að hafa ekki komist í nánari kynni við hann en sem hálfgerða skuggamynd á Hamingjudögum.

 

Og ég fór því að leita að forlaginu hans í París, þangað sem ég hafði skrifað honum. Forlagið hét og heitir eflaust enn Edisjóns du Minúít og er víst virt vel þar í Frakklandi, ekki síst útá það að gefa út Beckett. Það er hins vegar ekki stórt og ég þurfti að hafa dálítið fyrir því að finna það.

 

Má ég núna hafa smáútúrdúr um götuheiti í Frakklandi? það er alkunna að allir þeir sem hafa látið heillast af franskri tungu og menningu, þeir verða svo hrifnir af hljómi tungumálsins og öllum ókjörum sem hægt er að segja á frönsku að þeir nota hvert tækifæri til að koma því að, altso sletta frönsku, og af einhverjum dularfullum ástæðum virðast þeir vera sérlega hrifnir af götunöfnum, og hljóminum í þeim.

 

Þetta á reyndar ekki við um Samúel Beckett en flestalla aðra, held ég, og reyndar Frakka sjálfa líka, eftir því sem ég best veit. Ég veit að minnsta kosti ekki um neina þjóð sem gerir eins mikið mál í bókum úr götunöfnum og Frakkar og frankófílar svonefndir, það er að segja þeir sem vilja draga flestan sinn dám af þeirri þjóð.

 

Í bókum eftir Frakka og frankófílana, þar stendur aldrei á þessa leið: „Þessu næst fór ég í heimsókn til Siggu frænku.“ Nei, Frankófílar orða það svona: „Ég fór eftir Rue de la Pommfrí, og síðan spölkorn eftir Avenjú de Belsjik uns ég beygði við Place de la Concorde niður á Búlevard Jean-Jacques Burnel – þar sem Sigga frænka átti heima.“

 

Og þessar leiðarlýsingar eru allar saman raktar af þvílíkri nautn að þetta hljómar einsog ljóð eða að minnsta kosti djúp speki um ástina, kynlífið og dauðann, en þýðir náttúrlega ekkert annað en: „Ég keyrði eftir Hringbrautinni, beygði út af á mislægu gatnamótunum við Safamýri og svo upp í Bollagarða.“

 

Þetta er dálítið furðulegt – að snobba fyrir götuheitum; ég held að þetta tíðkist ekki í svo ríkum mæli í öðrum tungumálum en frönsku. En ég sé það mér til hrellingar í greininni sem ég skrifaði fyrir tuttugu árum að ég hef sakir ungæðisháttar látið fallerast soldið af þessu – þó ég hafi þá ekki kunnað neina frönsku, frekar en núna. Því í greininni stendur orðrétt: „Edisjóns stendur við litla götu sem liggur út af Rue des Rennes, sem aftur liggur út af búluvarðinum fræga, Saint Germain.“

 

Ég dauðskammast mín náttúrlega núna fyrir þessa hallærislegu setningu en hef því miður grun um að ég hafi verið ákaflega ánægður með hana þá – það eina sem ég hef mér til afbötunar er að ég stillti mig greinilega um að nefna sjálfa götuna þarsem forlagið var til húsa; því götuheiti er ég nú auðvitað löngu búinn að gleyma og get þess vegna ekki freistast til að slá um mig með því núna.

 

En sú freisting – ég lofa því! – er ákaflega lítil.

 

En alla vega var þetta stutt og þröng og frekar tíkarleg gata þar sem hún lá útfrá Rue des Rennes, ekki ýkja snyrtileg einusinni, og þó ég hafi nú svosem ekki búist við að forlagið hans Becketts væri til húsa í einhverju stórhýsi, þá varð ég nú samt dálítið hissa á því hversu óglæsileg húsakynnin voru í raun og veru.

 

Reyndar lenti ég í mesta basli með að finna húsið þarsem forlagið var til húsa, en á dyrum mjög svo óvirðulegs húss fann ég loksins gamalt og snjáð spjald þarsem stóð Edisjóns du Minúít – og þegar ég hugsaði málið í þá daga fannst mér náttúrlega að þetta hæfði Beckett líklega afar vel. Svo hráslagaleg væru skrif hans í eðli sínu. Og kinkaði kolli með sjálfum mér. En svo kom babb í bátinn.

 

Er ég ætlaði að stíga inn á forlagið kom í ljós að það var harðlæst, og ansaði enginn þó ég bankaði. Að síðustu fann ég vesældarlega dyrabjöllu og eftir að hafa hringt vel og lengi mjökuðust dyrnar loks upp. Það sást engin manneskja, en við mér blasti langur, þröngur og dimmur gangur og síðan stigi á loft þar sem mætti mér kona á miðjum aldri, nokkuð hvatskeytin í framkomu.

 

Hún talaði enga ensku og ég enga frönsku einsog áður sagði og því gengu samræður stirðlega svo ekki sé fastar að orði kveðið. Ég gat ekki með nokkru móti gert henni skiljanlegt hvað ég væri að vilja þangað, en að lokum tókst henni hins vegar að gera mér ljóst að á forlaginu væru allir í sumarfríi og sneru ekki aftur til vinnu fyrr en fyrsta september.

 

Ef ég kæmi aftur þá myndi ég örugglega hitta á einhvern sem kynni að tala ensku og gæti aðstoðað mig – við mín mjögsvo dularfullu erindi þarna á forlagið. Og ég gat ekki annað en hrökklast burt úr þessum dimma gangi og hafist handa um að bíða til fyrsta september.

 

En annan september átti ég bókað flug heim til Íslands, og í þá daga gerði maður ekki að gamni sínu að reyna að breyta flugfarseðlum, svo ekki var nú mikill tími til stefnu að komast í samband við Beckett eftir að fólkið á forlaginu kæmi loks úr sumarfríi.

 

Ég ákvað því að skrifa Beckett annað bréf sem ég stakk í póstkassa forlagsins í þeirri von að þótt starfsfólk væri fjarri, þá vitjaði hann að minnsta kosti um póstinn sinn. Í bréfinu tilkynnti ég glaðbeittur að ég væri nú kominn til Parísar – einsog hann sæi það nú ekki sjálfur af umslaginu – en ætti óneitanlega í ákveðnum erfiðleikum með að ná sambandi við hann.

 

Ég gaf honum þvínæst upp adressuna á íbúðinni sem ég hafði til afnota þessa daga í París, og símanúmerið, og kvað heppilegast að hann skrifaði mér smá nótu og tilgreindi stað og stund þarsem við gætum hist. Þetta var á miðvikudegi en fyrsti september yrði næsti þriðjudagur. Og því ekki um annað að gera en bíða.

 

Ég notaði tímann vel þá daga sem ég beið eftir Samúel Beckett. Meðal annars keypti ég bók eftir Beckett sem þá var nýkomin í bókabúðir – og hafði líklega verið síðasta verk fólksins á Edisjóns du Minúít að koma henni út áður en það flykktist í sumarfrí. Mér til ósvikinnar blygðunar sé ég að í greininni í Helgar-Tímanum hef ég séð ástæðu til að taka fram að bókina hafi ég keypt „í bókabúð á móti Pompidou-safninu“, alveg eins og það skipti einhverju máli.

 

Bið hér með lesendur greinarinnar afsökunar á þessari fordild, þótt seint sé.

 

En hvað um það – um þær mundir hafði Beckett lært svo vel þá lexíu Sigfúsar Daðasonar, að segja alltaf færri og færri orð, að bækurnar sem frá honum komu töldust góðar ef þær náðu tuttugu þrjátíu síðum. Þessi var að vísu í lengra lagi, heilar sjötíu og sex blaðsíður, en að vísu með alveg óvenjulega stóru letri og sérlega ítarlegum spássíum. Mér taldist til að á hverri blaðsíðu væru ekki nema um það bil hundrað orð, en slíkt mundu nú flestir telja mikið bruðl á pappír.

 

En ástæðan fyrir því að ég lagðist útí leikfimi einsog það að telja orðin á hverri blaðsíðu var vitaskuld bara sú að ég gat ekki með neinu móti lesið bókina sjálfa – hún var á frönsku og frönsku kunni ég ekki. Hins vegar leit textinn ljómandi sannfærandi út og ég efaðist ekki um að þar væri að finna margan góðan bömmer sem mig þyrsti í að komast í tæri við.

 

Löngum stundum eyddi ég í íbúðinni minni við að góna á titil bókarinnar, sem ég skildi ekki frekar en textann sjálfan. „Mal vú mal dít“ – hvað skyldi það nú eiginlega þýða? Einhverra hluta vegna fann ég ekkert líkt þessum bókartitli Becketts í einu orðabókinni sem ég hafði undir höndum, en það var „Berlitz – fransk for rejsebrug“.

 

Löngu seinna komst ég að því að besta íslenska þýðingin á þessum franska titli væri líklega Vandséð vandsagt, en það er annar handleggur.

 

Nú – en tíminn leið einsog honum er svo tamt, og sérstaklega kannski í bókum Becketts: Tíminn er hinn mikli óvinur, en þó um leið sá eini sem getur linað þjáningu tilverunnar, því kannski lýkur þessu þrátt fyrir allt einhvern tíma – en ég hafði semsagt farið á forlagið á miðvikudegi og átti að fara frá París næsta miðvikudag.

 

Fimmtudagurinn leið án þess að nokkuð gerðist, síðan föstudagur, laugardagur og sunnudagur. Þegar kom fram á mánudag var ég farinn að örvænta um að ég myndi nokkuð heyra frá Beckett og arkaði því aftur niður á forlagið hans í veikri von um að þar lægju fyrir mér skilaboð.

 

Þar tók á móti mér sama konan og áður, en hafði nú sér til fulltingis aðra konu sem bersýnilega var komin fyrr en til stóð úr sumarfríinu. Sú hét Irena og talaði guðsblessunarlega ensku. En Irene kannaðist því miður ekki við að Mr. Beckett hefði lagt inn nokkur skilaboð handa mér og sagði blátt áfram að henni væri bannað að hringja í hann, auk þess sem hún sagðist ekki hafa hugmynd um hvort hann væri yfirhöfuð í París þessa stundina.

 

Hún sagði mér að bíða bara rólegur, Mr. Beckett myndi örugglega skrifa mér ef hann hefði á annað borð hug á að hitta mig en hún virtist ekki taka það nema mátulega hátíðlega þegar ég fullvissaði hana um að hann hefði raunar þegar lofað mér fundi.

 

Reyndar virtist hún ekki taka mig nema mátulega hátíðlega yfirleitt.

 

Það var því ekki hátt á mér risið þegar ég fór öðru sinni frá Edisjóns du Mínúít. Svo var það morguninn eftir – daginn áður en ég átti að fara frá París að ég sat í íbúðinni og var að slafra í mig einhvern morgunmat. Ég hlýt að láta þess getið, sjálfum mér loksins til hróss að í greininni í Helgar-Tímanum hef ég stillt mig um að orða það svo að ég hafi setið á svölunum og bitið í croissant eða baggette, milli þess sem ég sötraði cafe óle – en frankófílar sletta frönskum heitum yfir mat líka alltaf fram þegar þeir mögulega geta, ekki síður en götuheitum.

 

En ég var þrátt fyrir allt ekki verr haldinn af frönskusnobbi en svo að ég skrifaði einungis að ég hafi setið að morgunverði – en viðurkenni reyndar, það þýðir ekki að neita því, að ég skrifaði „að frönskum morgunverði“. En þá hringdi síminn.

 

Ég hrökk verulega við því síminn hafði þagað blessunarlega þessa daga sem ég hafði verið í íbúðinni. Og sjálfur hafði ég bara gefið einum manni upp símanúmerið mitt, altso Mr. Beckett. Ég vandaði mig að minnsta kosti mjög mikið þegar ég tók upp tólið og sagði:

 

„Halló?“

 

Það var þögn – í eina, tvær, þrjár, fjórar sekúndur. Hafiði hlustað á þögn í fjórar sekúndur? Þær geta verið ógnarlengi að líða. En síðan var lagt á. Og það kom sónn.

 

Þetta var einkennilegt símtal – og einkennileg þögn þessar fjóru löngu sekúndur. Í greininni orða ég það svo af æskufjöri að þetta hafi verið mjög „beckettsk þögn, svona eins og þegar Vladimir og Estragon þegja, eða Hamm og Clov“.

 

Ég hef að vísu af dálítið tilgerðum lærdómi mínum ekki talið ástæðu til að útskýra fyrir lesendum hvurjir þeir þegjandalegu kurfar væru, en get að öðru leyti vel staðið við þessa setningu – og greini þá frá því nú að annars vegar er um að ræða persónurnar úr Beðið eftir Godot, hins vegar úr Endatafli.

 

En svo ég víki nú aftur að þessu einkennilega símtali, þá taldi ég strax víst að Beckett hefði verið í símanum. Honum var að vísu meinilla við síma, það vissi ég, nema hvað ég vissi að hann talaði gjarnan við konuna sína í síma og sérstaklega ef þau voru stödd bæði heima hjá sér, þá talaði hann við hana í síma úr næsta herbergi til að þurfa ekki að hitta hana, en að öðru leyti reyndi hann að sneiða hjá símtækinu.

 

Og í þetta sinn hafði hann greinilega ekkert haft neitt sérstakt að segja, en mér datt í hug hvort hann gæti hafa verið að aðgæta hvort þessi ungi blaðamaður frá Íslandi væri yfirhöfuð til staðar og hvurnig hann hljómaði – þó það væri ekki nema eitt „halló“. Og þó hann segði ekkert sjálfur.

 

Hér er á það að líta að Beckett hafði skrifað leikverk sem hann kallaði Andardrátt og bar nafn með rentu, því það var ekkert annað en eitt andvarp manns sem við sjáum ekki á leiksviði sem er fullt af rusli, og þetta kallaði Beckett fúllbefarið leikrit – svo út frá því sjónarmiði gat ég nú vel litið svo á að ég hefði rétt í þessu átt raunverulegt og jafnvel innihaldsríkt símtal við Samúel Beckett. Og get svosem verið montinn yfir því – því hversu margir áttu þess kost að tala við Beckett í síma?

 

Þó hann hafi kannski ekki sagt neitt heldur bara þagað í fjórar sekúndur.

 

Maður fúlsar ekki við fjögurra sekúndna þögn í síma ef maður þykist vita að Samúel Beckett sé á hinum enda línunnar.

 

En eftir þetta gagnmerka símtal mitt við Beckett, þá fékk ég alla vega eitt af þeim sjaldgæfu hugboðum sem ég hef fengið um ævina. Allt í einu vissi ég að niðrí póstkassa biði mín bréf frá Beckett.

 

Og það reyndist vera rétt, þar var annað svona lítið fallegt bréfspjald, þar sem Beckett stakk upp á að við hittumst næstkomandi föstudag, fjórða september, klukkan ellefu árdegis í móttökusalnum á hóteli einu sunnarlega í borginni – og hér hef ég bætt við í greininni góðu, „ekki langt frá Place Denfert-Rochereau“, eins og það hafi átt að segja eitthvað sérstakt bændunum sem lásu Tímann.

 

En svo sagði í bréfinu: „If that suits you no need to confirm“ – en það þýðir á álíka símskeytamáli: „Ef það hentar þér engin þörf að staðfesta“.

 

En þetta hentaði mér í rauninni alls ekki, því ég var að fara frá París strax daginn eftir, uppúr hádegi. En nú var kominn fyrsti september og búið að opna skrifstofur forlagsins svo þangað hringdi ég, náði sambandi við hana Írenu og sagði farir mínar ekki sléttar. Hún endurtók að hún gæti ekki haft samband við Mr. Beckett og vissi ekki hvort hann væri í borginni.

 

Ég grátbað hana að kanna hvort Mr. Beckett gæti kannski hugsanlega hitt mig strax daginn eftir á sama stað og tíma, því ég væri á heimleið, og til að losna við þetta sífur lofaði hún að lokum að athuga málið. Og þegar hún Írena tók loks til starfa var hún ekki að tvínóna við hlutina. Hún fór úr símanum og ég beið í nákvæmlega hálfa mínútu og þá kom hún aftur og sagði mér að allt væri klappað og klárt – Mr. Beckett myndi hitta á umræddu hóteli klukkan ellefu morguninn eftir.

 

Hún var svo snögg að þessu að annaðhvort hefur Mr. Beckett einmitt verið staddur á skrifstofunni hennar þegar ég hringdi, eða þá – þó mér hafi ekki dottið það í hug þá – að Írena hefur verið Mr. Beckett í dulargervi, til að losna við ágang túrista og blaðamanna þegar hann færi á forlagið sitt.

 

En hvað sem því leið hafði fundurinn nú loks verið afráðinn.

 

Og ég varð að fara að reyna að gera upp við mig hverju ég mundi nú svona helst brydda uppá við Beckett á okkar „strictly private talk“. En átti enn sem fyrr erfitt með að finna uppá einhverju.

 

Morguninn sem ég átti að hitta Beckett lagði ég upp með mjög góðum fyrirvara þarsem ég hafði séð á korti að þetta merkilega Place Denfert-Rochereau væri býsna langt í burtu. Klukkan var rétt um hálf ellefu þegar ég gekk útá það götuhorn í nágrenni við mig þarsem leigubílar voru venjulega í löngum röðum.

 

Að vísu var þar enginn leigubíll þá stundina en ég hafði nú ekki miklar áhyggjur – einhver hlyti brátt að skila sér. En svo liðu mínúturnar og enginn leigubíll birtist og ég fór að ókyrrast. Þótt leigubílstjórar í París væru kenjóttir voru þeir ekki vanir að láta sig hverfa gjörsamlega – en það gerðist í þetta sinn. Ég gafst brátt upp á að hanga á þessu tiltekna horni og þaut út á nálæga búlúvarða og veifaði þar í ofboði en þótt umferðin væri geysimikil var hvergi einn einasta leigubíl að sjá.

 

Nú komu hin hljómmiklu nöfn á frönskum götum að litlu haldi – þótt ég æddi í örvæntingu um Rúe de la Búlúvard de la Avenjú de la Place de la Strass, þá fann ég hvergi einn einasta leigubíl.

 

Átti ég virkilega að missa af stefnumóti við Samúel Beckett afþví ég fékk ekki leigubíl?

 

Það var náttúrlega svo banal og hallærisleg og í rauninni ótrúleg tilhugsun að ég gat ekki hugsað það til enda, þarsem ég þeyttist um götur og torg, en þegar loks seint og um síðir birtist leigubíll, þá var klukkan orðin ellefu og rúmlega það.

 

Og ég orðinn algjörlega desperat, því ég ímyndaði mér að maður sem hefði skrifað heilt leikrit um hvað honum leiddist að bíða eftir sjálfum Godot – hann færi nú varla að eyða miklum tíma í að bíða eftir mér.

 

Ég bjó einsog ég hef margtekið fram ekki yfir nægri frönskukunnáttu til að geta spurt leigubílstjórann hverju þetta leigubílaleysi hefði sætt, hvort þeir hefðu allir verið á fundi í Leigubílstjórafélaginu eða hvað, enda var mér nú reyndar annað ofar í huga. Það tók tuttugu mínútur að komast á hótelið og þegar ég æddi þar inn um dyragætt blasti við mér stór og mikil klukka: 11.27.

 

Ég hóf síðan dauðaleit að Beckett á hótelinu, en það kom mér reyndar dálítið á óvart að Beckett skyldi hafa valið það – því þetta var stórt og nýtískulegt hótel með ótal börum og kaffihúsum og veitingastöðum í allskonar afkimum.

 

Það er til marks um mína algeru örvinglan að ég sá brátt Beckett í hverju horni og fór að abbast upp á allskonar menn í von um að þeir væru hann – meirað segja litlir feitir og sköllóttir kallar sluppu ekki alveg undan minni óskhyggju, en allir vísuðu þeir furðu lostnir því á bug að þeir væru Mr. Beckett að bíða eftir Mr. Jökulsson.

 

Ég varð að lokum að horfast í augu við þá nöturlegu staðreynd að Mr. Beckett var vitaskuld farinn. Ekkert hægt að gera – og það kom ekki einu sinni lítill strákur og sagði mér að Mr. Beckett kæmi aftur á morgun.

 

Ég var auðvitað í aðra röndina mjög feginn. Því hvernig sem ég hafði reynt hafði mér alls ekki dottið í hug neitt sem ég ætti vantalað við Mr. Beckett. En samt var þetta auðvitað þyngra en tárum taki og ég var eins og barinn hundur þegar ég hringdi í Írenu og sagði mínar farir ekki sléttar.

 

Mér til ævarandi skammar þá þorði ég ekki að segja henni í smáatriðum frá hinni raunverulegu ástæðu þess að ég hefði ekki komist til fundarins við Beckett á réttum tíma, heldur sagði henni einungis að ég hefði orðið fyrir lítilsháttar slysi – sem vissulega mátti til sanns vegar færa.

 

Og Írena spurði einskis, hún var að vísu full samúðar en sagði mér að Mr. Beckett væri nú einu sinni afar stundvís maður og mæti líka stundvísi mikils hjá öðrum. Maður þyrfti því að vera mættur á mínútunni ef maður ætlaði að hitta á hann.

 

Til að þetta færi nú ekki milli mála endurtók hún þetta þrisvar – eins og ég hafi ekki verið farinn að gera mér grein fyrir því þá þegar. Hún lét líka á sér skilja að Mr. Beckett hefði áreiðanlega horfið af vettvangi strax og klukkan var orðin eina mínútu yfir ellefu – eins og það ætti að vera mér einhver huggun. Og loks kvað Írena varla hægt að gera nokkuð í málinu úr því sem komið væri – fyrst ég væri á förum frá París eftir örfáar stundir – en lofaði að skilja því til Mr. Becketts að mér þætti þetta alveg ægilega leiðinlegt.

 

En af þessari ömurlegu niðurstöðu – að ég missti af algjörlega einstæðu tækifæri til að eiga „strictly private talk“ við Samúel Beckett vegna þess að ég fékk ekki leigubíl – af henni má að vísu ef til vill draga þann háspekilega lærdóm að það er kannski ekki endilega mjög stórvægileg ástæða fyrir því að Godot er ekki enn kominn á stefnumótið við þá Vladimir og Estragon.