Á myndinni hér fyrir ofan – sem er frá árinu 1886 – bregður sænska leikskáldið August Strindberg á leik, en við höfum áður fjallað um þessa mynd á síðunni. Strindberg lést í maí árið 1912 – fyrir 100 árum síðan.

 

Á páskum rifja margir upp biblíusögur og hugleiða kristin fræði. Lesendur biblíunnar sjá eftir nokkrar blaðsíður að líklegt er að þeir lendi alla leið í helvíti, enda erum við flest syndaselir.

 

August Strindberg las biblíuna spjaldanna á milli og var handviss um að brenna í helvíti.

 

En hann vissi ekki hvar helvíti var. Hélt kannski að það væri bærinn Lundur í Svíþjóð.

 

En íslenska skáldið Gyrðir Elíasson uppgötvaði fyrir nokkrum misserum helvíti Strindbergs.

 

Það er í Garðabæ. Fyrir þessa uppgötvun fékk Gyrðir bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs.

 

Brot úr verðlaunabókinni Milli trjánna:

 

Haustsólin skein inn um gluggann, og mér varð starsýnt á mann sem sat einsamall við eitt borðið útvið gluggann. Hann sat álútur, var rauðhærður og með gisið skegg, í svörtum frakka með uppbrettum kraga, og samlitt beltið lafði niður á gólfið. Hann var með bjór fyrir framan sig, og starði ofan í glasið einsog hann sæi ekkert annað, eða glasið væri skuggsjá þar sem mætti sjá heilan heim.

Mér fannst ég kannast við manninn, en áttaði mig ekki strax á honum. Svo rann skyndilega upp fyrir mér ljós.

Þetta var August Strindberg.

Strindberg, sem hafði óttast helvíti meira en nokkuð annað, og hafði skrifað um þann ótta sinn, en var nú lentur hér eftir dauðann, í Ikea á Íslandi. Hann sem hafði haldið að Lundur væri helvíti á jörð, en vissi fátt um Ísland og ekkert um Ikea, enda var það ekki til á hans dögum. Ég sá hvernig hann einsog seig meira og meira saman yfir bjórglasinu, dæmdur maður um alla eilífð. Hann sem hafði skrifað í dagbók sína: „Sá sem segir að lífið sé dásamlegt, er annaðhvort svín eða hálfviti.“ „Sjáðu þarna,“ sagði ég við konuna mína og benti yfir salinn.

„Hvar?“

„Þarna útvið gluggann.“

„Hver er þetta?“

„Þetta er August Strindberg.“

„Er það forstjórinn?“ sagði hún áhugalaus. Svo lifnaði aðeins yfir svipnum og hún bætti við: „Eiginlega ætti ég að láta hann heyra hvernig þessi búð er orðin.“ „Nei, hann er rithöfundur,“ sagði ég og leiðrétti mig síðan: „Eða var.“ „Þessi gamli meinarðu?“ „Já.“