Fyrir nokkrum vikum sagði Lemúrinn frá því að Íslendingur hafi viljað hefja ræktun á afkvæmum afrísks gresjukattar og íslensk heimiliskattar, en ekki fengið til þess leyfi landbúnaðarráðherra. Sæði úr gresjuköttunum átti að planta í íslenskar læður svo þær eignuðust hálf-afríska villikettlinga.

 

Heimilisköttur nokkur í Bandaríkjunum hefur hinsvegar gengið skrefinu lengra og eignast kettling sem ekki einungis er afrískur villiköttur, heldur einnig í útrýmingarhættu. Móðirin er ofurvenjuleg bandarísk heimilisköttur, en afkvæmið er af tegund afrískra villikatta sem nefnast svartfættir kettir (felis nigripes).

 

Svartfættur köttur.

 

Kettlingurinn var búinn til með glasafrjóvgun á Audubon Center for Research of Endangered Species í Louisiana. Fóstur úr svartfættum ketti var frjóvgað í tilraunaglasi og síðan komið fyrir í venjulegum bandarískum heimilisketti. Tilraunin heppnaðist og þann 6. febrúar síðastliðinn eignaðist staðgöngumóðirin svartfættan kettling.

 

Kettlingurinn hefur fengið nafnið Crystal, en fæðing hennar er talið marka tímamót í ræktun dýra í útrýmingarhættu. Crystal ku haga sér að flestu leiti sem svartfættur köttur, þrátt fyrir að vera alin upp af heimilisketti.

 

 

Svartfætti kötturinn er einn af allra minnstu kattategundunum — minni en flestir heimiliskettir. Svartfætlingar þessir (nafn þeirra er dregið af svörtum þófunum) halda til í suðurhluta Afríku; í Botswana, Namibíu og hluta Suður-Afríku. Þeir eru næturdýr sem á daginn halda til í grenum og eltast við nagdýr á nóttunni. Kjörlendi þeirra fara óðum minnkandi og áætlað er að einungis 10.000 kettir séu eftir af tegundinni.