Þessi mynd er tekin í september 1936 og sýnir verkamenn í skipasmíðastöð Blohm & Voss í Hamburg, við sjósetningu seglskipsins SSS Horst Wessel. Viðstaddur sjósetninguna var kanslari Þýskalands, Adolf Hitler, og þegar hann steig fram gerðu verkamenn Blohm & Voss að sjálfsögðu það sem ætlast var til: hylltu Foringjann með Hitlerskveðju. Það er að segja — allir nema einn. Á meðan flestir verkamennirnir rétta út hægri hönd í átt að Hitler er einn maður, til hægri á myndinni, sem stendur með krosslagða arma, ákveðinn á svip.
Maðurinn á myndinni er August Landmesser, fæddur 1910. Það kann að útskýra augljósa andúð Landmessers á Hitler að unnusta hans og barnsmóðir, Irma Eckler, var Gyðingur, og yfirvöld höfðu nýlega bannað slík sambönd.
Ári eftir að þessi mynd var tekin var Landmesser fangelsaður, sakaður um „Rassenschande“ — kynþáttaspjöll. Irma var einnig tekin höndum. Tvær dætur þeirra — Ingrid, fædd 1935, og Irene, 1937 — voru sendar á munaðarlausrahæli.
Landmesser losnaði úr fangelsi 1941. Hann var síðan kallaður í herinn og snéri aldrei aftur heim af vígvellinum. Hann var úrskurðaður látinn 1949. Irma var send í hinar alræmdu kvennafangabúðir Ravensbrück og lést í gasklefunum 1942.
Báðar dæturnar lifðu af stríðið og ömurlega dvöl á munaðarleysingjahælum. Eldri systirin Irene bar kennsl á föður sinn á myndinni hér að ofan, þegar hún birtist í dagblaðinu Die Zeit árið 1991.