Yfirvaraskeggið er ekkert tískufyrirbæri í Þýskalandi. Reyndar hefur það fylgt Germönum í þúsundir ára og var jafnvel sérkenni þeirra í fornöld.

 

Grikkir og Rómverjar töldu sig öðrum þjóðum fremri og betur siðaða í fornöld. Þjóðflokkar Vandala, Germana og Húna sem Rómverjar áttu í stríðum við, voru einfaldlega kallaði Barbarar. Svo fór þó að lokum að Barbararnir sigruðu. Rómarborg var rænd af Vandölum og nokkru seinna lögðu Germanir undir sig Ítalíu.

 

Nýja germanska yfirstéttin var fljót að taka upp ýmsa siði Rómverja enda menning þeirra miklu þróaðri að mörgu leyti. Þetta sést vel á mynt sem germanski konungurinn Theoderic, Þjóðríkur, lét slá, en hann var konungur Ítalíu 471-526.

 

Hér er Þjóðríkur í rómverskri brynju, með skikkju og veldissprota í hendi. Nafn hans er skráð á latínu en hvers konar klipping er þetta eiginlega? Maðurinn er með sítt hár og yfirvaraskegg. Þetta er skýrt merki þess að Þjóðríkur sé barbari inn við beinið.

 

Sagnfræðingurinn Bryan Ward-Perkins birtir mynd af Þjóðríki í bók sinni um fall Rómar. Hann segist engin dæmi þekkja, frá nokkru tímabili fornaldar, þar sem Grikkir eða Rómverjar eru sýndir með yfirvaraskegg. Þeir hafi annað hvort verið sléttrakaðir eða með alskegg.

 

Einn arftaka Þjóðríks var Theodahad, konungur Ítalíu 534-536. Theodahad hélt áfram að tileinka sér menningu hinna sigruðu Rómverja – lærði rómanskar bókmenntir og platónska heimspeki. En hélt áfram í tákn þjóðar sinnar, yfirvaraskeggið.

 

 

Heimild: Ward-Perkins, Bryan, The Fall of Rome and the End of Civilization, 2005.