Þessi brasilíski djassjólasveinn nefnist Hermeto Pascoal, en er oftar en ekki kallaður galdrakarlinn – því hann spilar listavel á hvaða hljóðfæri sem tjáir að nefna, hvort sem það er gítar, hljómborð, saxófónn eða flauta. Miles Davis sagði enda að hann væri einn tilkomumesti tónlistarmaður sem hann hefði kynnst.

 

Hermeto ólst upp við sára fátækt í afskekktri byggð í norðaustur Brasilíu – en þar sem hann er albínói og þolir illa sól neyddist hann til að dvelja mikið innandyra. Hans helsta dægradvöl var því að spila á harmonikku föður síns tímunum saman.

 

Um þrítugt hafði hann spilað inn á plötur goðsagna á borð við Edu Lobo og Elis Regina, en hann náði fyrst eyrum tónlistarunnenda utan Brasilíu þegar hann lék með Miles Davis á plötunni Live-Evil (1971).

 

Þrátt fyrir að vera kominn á áttræðisaldurinn er Hermeto enn í fullu fjöri – og svo virðist sem að sköpunargáfu og tilraunamennsku hans séu engin mörk sett – samanber eftirfarandi myndband, þar sem hann leikur meðal annars á flautu, teketil og… jólasveinaskeggið sitt.

 

Vídjó

 

Hermeto sækir innblástur sinn bæði til hinnar fjölbreyttu arfleifðar brasilískrar tónlistar – og til náttúrunnar sjálfrar.  Hér leikur hann í hálfu kafi ásamt aðstoðarmönnum…

Vídjó

 

… og hér hermir hann eftir hljóðum dýranna á meðan hann röltir um dýragarð. Um miðbik myndbandsins fáum við loks tóndæmi af aðeins hefðbundnari tónlist Hermeto Pascoal.

 

Vídjó