Hvaða mynd hefur umheimurinn af Afganistan? Land þar sem ríkir endalaust stríð, mennirnir eru fúlskeggjaðir talíbanar og konurnar bláleitar búrkuþústir?

 

Þjóðverjinn Lukas Augustin bjó í Afganistan í tvö ár sem starfsmaður hjálparsamtaka og heillaðist bæði af náttúru landsins og þjóðinni sem þar býr.

 

Í sumar snéri hann aftur til Afganistans með kvikmyndavél og afraksturinn varð þessi fallega stuttmynd,

„>Afghanistan – touch down in flight. Með myndinni vill Augustin kynna okkur hinum landið sem hann elskar. Stórbrotin náttúrufegurð og magnaðar myndir af venjulegum Afgönum við daglegan leik og störf — Afganistan handan stríðsfyrirsagnanna í vestrænum dagblöðum.

 

Viðtal við Augustin er að finna á heimasíðu tímaritsins Atlantic. Þar segir hann að margir Afganar hafi skrifað honum eftir að hann setti myndina á netið, og sagt að þeir hafi tárást þegar þeir horfðu á myndina. „Við sýndum að það er fegurð og líf í landinu þeirra, sem hægt er að reisa von á og ekki gefast upp á framtíðinni.“