Ljósmyndin sýnir Dilmu Rousseff, núverandi forseta Brasilíu, í yfirheyrslum hjá herforingjastjórninni í nóvember árið 1970. Hún var aðeins 22 ára gömul og hafði verið pyntuð daglega í meira en þrjár vikur þegar myndin var tekin. Takið eftir að embættismennirnir skýla andlitum sínum.

 

Ljósmyndin komst í leitirnar fyrir skömmu og birtist í nýrri bók blaðamannsins Ricardo Amaral um líf Dilmu Rousseff á tímum herforingjastjórnarinnar. Dilma var meðlimur í skæruliðahreyfingu ungra marxista og var uppnefnd „hin brasilíska Jóhanna af Örk“ af rannsóknarmönnum hersins.

 

Dilma 22 ára.

Dilma 22 ára gömul við yfirheyrslur hjá herforingjastjórninni.

 

Eftir þessa hræðilegu reynslu flutti Dilma til annarrar borgar, menntaði sig í hagfræði og stofnaði fjölskyldu.

 

Fangamynd af Dilmu úr skýrslum herforingjastjórnarinnar.

Hún varð árið 2010 fyrsta konan til að vera kjörin forseti Brasilíu, sjöunda stærsta hagkerfis heims, og leysti þar flokksbróður sinn úr Verkamannaflokknum af hólmi, Luiz Inácio Lula da Silva.

 

Herforingjastjórn stjórnaði Brasilíu frá 1964 allt til ársins 1985. Það var löng og erfið nótt fyrir fólk af vinstri vængnum í landinu sem hafði upplifað mikla bjartsýnistíma upp úr 1960 þegar vinstrimaðurinn João Goulart var kjörinn forseti landsins í lýðræðislegum kosningum. En herinn steypti honum af stóli hinn 31. mars árið 1964. Ungliðahreyfingar marxista mættu gífurlega harðri meðferð og voru meðlimir þeirra kerfisbundið teknir úr umferð – hnepptir í varðhald, pyntaðir og jafnvel myrtir án dóms og laga.

 

Hernum var stýrt af hægrisinnuðum valdablokkum í Brasilíu sem nutu stuðnings Bandaríkjastjórnar – eins og gerðist í flestöllum ríkjum Suður-Ameríku á hinu blóðuga tímabili á árunum 1960-1980.

 

Opinber mynd frá 2011 af Dilmu Rousseff, forseta Brasilíu.

Opinber mynd frá 2011 af Dilmu Rousseff, forseta Brasilíu.