Árið 1393 kom út „öndvegisritið“ Le Ménagier de Paris, sem mætti leggjast út á íslensku sem Húsmæðrakver frá París. Þótt eftirsóknarvert væri að kalla ritið barn síns tíma er raunveruleikinn því miður í mörgum tilfellum annar.

 

Ritið er í stuttu máli kennslubók, eða svokallað húsmæðrakver, fyrir ungar konur sem eru að stíga sín fyrstu skref í hjónabandi. Sögumaður er uppskáldaður eldri karlmaður sem gefur góð ráð (í boðhætti) um hvernig sé best að þóknast eiginmanni og fjölskyldu. Helst er um að ræða ráðleggingar um matreiðslu, garðrækt og hvernig konur eigi að hegða sér í kynlífi (Cosmopolitan?).

 

Ritið er eftir sem áður ein merkasta heimild sem til er um daglegt líf á miðöldum, að minnsta kosti hjá efnameiri fjölskyldum. Það á ekki síst við um matarmenninguna, en bókin nýtur enn mikilla vinsælda sem matreiðslubók þeirra sem eru forvitnir um hvernig veislumatur mun hafa bragðast á miðöldum. Uppskriftirnar eru þó nokkuð takmarkaðar því oftast er aðeins tekið fram hvaða hráefni skal nota og hvernig það skal meðhöndlað. Magn, eldunartími eða eldunarhiti eru breytur sem vantar… en ef til vill af skiljanlegum ástæðum. Hér er í öllu falli hægt að nálgast þann hluta bókarinnar sem snýr að matargerð.

 

Má þar meðal annars finna leiðbeiningar um hvernig má matreiða vinsælasta hátíðarmat heldri fjölskyldna Frakklands á miðöldum, en það mun hafa verið grillaður svanur. Þá voru páfuglar einnig vinsælir, ásamt öðru góðgæti.