Eyjan Jeju liggur í Kóreusundi, suður af sjálfum Kóreuskaga. Sjórinn í kringum eyjun er ríkur af kúskeljum, kolkröbbum, sæsniglum og öðru gómsæti og árþúsundum saman hafa íbúar eyjunnar lifað á því að kafa eftir þessum auðlindum sjávar. En eyjarskeggjar voru lengi þungt skattlagnir af yfirvöldum á kóreska meginlandinu og lífsbarátta þeirra því erfið.

 

Það voru einungis karlar sem þurftu að borga þessa þungu skatta, enda kom meginlendingum ekki til hugar að konur gætu gert nokkuð sem vert væri að skattleggja. En á átjándu öld kom klókum hóp kvenna til hugar að skipta einfaldlega um hlutverk. Skattpíndu karlarnir sátu heima með börnin, og konurnar fóru og köfuðu eftir skeljum.

 

Sjókonurnar“ (haenyo) á Jeju-eyju hafa nú stundað þessa iðju kynslóðum saman. Þær kafa niður á allt að 20 metra dýpi í svikulum sjó Kóreusunds, innan um marglyttur, hákarla og önnur hættuleg kvikindi. Á hverjum morgni áratugum saman — flestar sjókonur halda áfram að kafa langt fram á sjötugsaldur.

 

Sjókonur við iðju sína á sjöunda áratugnum.

 

Jafnframt þessu hefur samfélagið á Jeju-eyju orðið einskonar mæðraveldi, sem nú er í hættu. Aukin velsæld sjókvennanna hefur gert þeim kleift að senda dætur sínar til náms og fáar þeirra vilja taka við af mæðrum sínum. Árið 1950 voru um 30.000 sjókonur á Jeju, en árið 2003 voru þær aðeins rúmlega 5500, og meirihluti þeirra eldri en fimmtugt. Það er því líklegt að lífsmáti þeirra leggist af á næstu árum.