Það verður seint sagt að evruseðlar séu sérstaklega fallegir eða áhugaverðir. Seðlarnir eru eins á öllu evrusvæðinu. Til þess að styggja engan eru þeir því skreyttir með óspennandi teikningum af byggingum og brúm sem eiga að vera einkennandi fyrir evrópskan arkitektúr. Hinsvegar eru myntir evrunnar ólíkar milli landa og hverju landi evrusvæðisins í sjálfsvald sett að skreyta aðra hlið á hverri mynt.

 

Löndin fara ólíkar leiðir. Flest konungsríki Evrópu kusu að setja bara myndir af kóngafólki upp á gamla mátann. Þannig prýðir fögur ásjóna Alberts II Belgíukonungs allar belgískar evrumyntir, nafni hans Mónakóprins mónakóskar evrur, og svo framvegis. Vatíkanið hefur eigin evrumyntir, og á þeim er að sjálfsögðu Benedikt XVI páfi.

 

     

Tveggja evrupeningar frá Belgíu, Mónakó og Vatíkaninu.

 

Sum lönd virðast hafa lagt lítið í hönnun myntanna sinna. Eistland, nýjasti meðlimur evrusvæðisins, setti einfaldlega útlínur landsins á allar sínar myntir. Sömuleiðis prýðir þjóðartákn Íra, harpan, allar írskar myntir. Skjaldamerki og frægar byggingar (t.d. Brandenborgarhliðið í Þýskalandi, Bratislava-kastali í Slóvakíu, Santiago de Compostela á Spáni) eru einnig vinsæl mótíf.

 


Eistland, írska harpan og Möltukrossinn.

 

Önnur lönd nota tækifærið og stæra sig af afrekum sínum og glæstri fortíð. „Liberté, egalité, fraternité“ stendur á frönskum evrum. Á ítölskum evrum má sjá fræg listaverk eins og Fæðing Venusar eftir Botticelli, Vitrúvíska mann da Vincis, og ásjónu skáldsins Dante. Á ítölsku 50 senta myntinni er svo Rómarkeisarinn Markús Árelíus á hestbaki.

 


Frönsk evra, Vitrúvíski maðurinn og Markús Árelíus.

 

Grikkland, sem nú á í mestum efnahagsvandræðum af öllum löndum evrusvæðisins, var einnig metnaðarfullt. Grískar evrumyntir bera vísanir í fortíð og hinar mikla goðsagnaheim Grikkja. Á einnar evrumyntinni er ugla, tákn Aþenu, sem prýtt hefur grískar myntir í rúm 2500 ár. Líkt og evran í dag var aþenska drakman notuð sem gjaldmiðill víða um heim, í hinum grískumælandi heimi auk þess sem hún barst með landvinningum Alexanders mikla alla leið til Írans og Indlands.

 


Aþensk tetradrakma frá 480 f. Kr. og grísk evra frá 2002 e. Kr.

 

Á tveggja evrumynt Grikkja er svo mynd af grísku goðsagnagyðjunni Evrópu, sem heimsálfan er nefnd eftir. Í ljósi efnahagsörðugleika Grikkja hafa sumir sagt að kannski hafi það verið dramb í Grikkjum að setja sjálfa Evrópu, nöfnu heimsálfunnar, á peningana sína.

 

Lemúrinn tekur enga slíka afstöðu, en ljóst er að goðsögnin sem myntin vísar í er miður skemmtileg. Evrópa var hástéttarkona frá Phönikíu sem gríski guðinn Seifur ágirntist. Hann brá sér því í nautslíki og rændi henni — á myntinni má sjá Evrópu á baki nautsins. Síðan fór hann með hana heim til Krítar og nauðgaði henni.

 

 

Verði Ísland einhverntímann meðlimur í evrusamstarfinu, hvað ætli við setjum á þá okkar myntir? Ein tillaga væri sjálfsagt að leyfa fiskunum góðu sem prýða krónupeningana að lifa áfram. Dýr er að finna á mörgum evrumyntum. Auk grísku uglunnar má nefna kýpverskt fjallafé, finnska svani og slóvenskan stork.

 

Yfirlit yfir alla evrupeninga má finna á heimasíðu Evrópska seðlabankans.