Vídjó

Að skipta sér af stjórnmálum í Pakistan getur verið lífshættulegt. Það kom því mörgum á óvart fyrr í haust þegar allt í einu dúkkaði upp popphljómsveit sem gagnrýnir og gerir stólpagrín að öllu heila klabbinu: trúarofstækismönnum, hernum, spilltum og hégómlegum stjórnmálamönnum, almenningi — allir fá að kenna á því.

 

Hljómsveitina Beygairat Brigade („Sæmdarlausa fylkingin“) skipa þrír ungir menn frá Lahore, menningarhöfuðborg Pakistans. Í október settu þeir sitt fyrsta tónlistarmyndband, Aalu anday, á netið. Síðan hefur það slegið í gegn meðal ungs fólks í Pakistan, sem er ekki vant að hlusta á svo hápólítiska tónlist. Það hefur einnig vakið mikla fjölmiðlaathygli í Pakistan og utanlands.

 

Titill lagsins merkir ‘egg og kartöflur’. Lagið hefst á því að söngvarinn kvartar yfir því að mamma hans hafi bara eldað handa honum egg og kartöflur. Hann langi í kjúkling og roti-brauð.

 

Fljótlega tekur texti lagsins þó alvarlegri mynd. Ungu mennirnir eru ekki bara á móti tilbreytingarlausum mat, heldur einnig stjórnmálaástandinu í heimalandi þeirra.

 

Söngvarinn gagnrýnir meðal annars að menn eins og Mumtaz Qadri og Ajmal Kasab séu álitnar hetjur af mörgum löndum hans, jafnt almenningi sem áhrifamönnum. Qadri er lífvörður og íslamisti sem í janúar í ár drap yfirmann sinn, Salmaan Taseer, ríkisstjóra Punjab. Taseer var frjálslyndur og á móti umdeildri guðlastslöggjöf sem setur dauðarefsingu við að ‘móðga íslam’.

 

Ajmal Kasab er einn af pakistönsku hryðjuverkamönnunum sem drápu 164 manns í Mumbai árið 2008. Kasab var sá eini árásarmanna sem lifði af og var handtekinn. Hann er nú dauðadæmur í fangelsi í Indlandi.

 

Og samtímis, harmar texti lagsins, að slíkir menn séu alþýðuhetjur, er Abdus Salam gleymdur. Abdus Salam (1926-1996) var eðlisfræðingur sem fékk Nóbelsverðlaun í eðlisfræði árið 1979, og er enn eini Pakistaninn sem hefur fengið slík verðlaun. Hann tilheyrði einnig íslamska trúarsöfnuðinum Ahmadiyya, sem sætir miklum fordómum og kúgun í Pakistan.

 

Aðrir sem verða fyrir barðinu á Beygairat Brigade eru meðal annars: bókstafstrúar-ímaninn Abdul Aziz Ghazi, sem árið 2007 reyndi að flýja lögreglu með því að klæða sig í búrku; Ashfaq Parvez Kayani, hinn valdamikli yfirmaður pakistanska hersins; og kriketthetjan og stjórnmálamaðurinn Imran Khan, hvers flokk Tehreek-e-Insaf þeir kalla ekkert nema ‘myndarlegri’ útgáfu af íslamistaflokknum Jamaat-e-Islami.

 

Og loks pakistanskur almenningur, sem vilji frekar kenna Blackwater og síónistum um öll sín vandamál frekar en að líta í eigin barm.

 

Frekari útskýringar á texta lagsins er að finna í grein pakistanska dagblaðsins Dawn.

 

Meðlimir Beygairat Brigade hafa í viðtölum ítrekað að þetta sé bara popplag sem ekki beri að taka of alvarlega. Slíkt er þó erfitt í eldfimu landi á borð við Pakistan. Hljómsveitin gerir sér grein fyrir þessu, eins og sést í lokaatriði myndbandsins:

 

"Ef þú vilt að ég fái byssukúlu í hausinn, lækaðu þá þetta myndband."