„Havana almennt og sér í lagi Finca Vigía, voru einu raunverulegu heimilin sem Hemingway átti um ævina. Það var þar sem næstum hálfur rithöfundarferill hans átti sér stað og þar sem hann skrifaði bestu verkin sín.

 

Maður býr á þessari eyju því það er nóg að klæða sig í skóna til að fara til borgarinnar, því það er hægt að kæfa hljóðið úr hringjandi síma með því að leggja yfir hann dagblað til að sleppa við hvaða símtöl sem er, og því það er betra að vinna í svala morgunsins, það er hvergi eins þægilegt. Þetta er leyndarmál í bransanum.

 

Það þarf ekki að benda sérstaklega á það, þar sem nær enginn efast lengur um að staðurinn þar sem rithöfundurinn skrifar er ein leyndardómsfyllsta ráðgátan í sköpunarverki bókmenntanna.“

 

Þannig komst kólumbíski Nóbelsverðlaunahafinn Gabriel García Márquez að orði í formála sem hann skrifaði að bók kúbverska rithöfundarins Norberto Fuentes um Ernest Hemingway á Kúbu.

 

Ernest Hemingway bjó frá 1939 til 1960 á setri sínu Finca Vigía (Varðbýli) í útjaðri Havana. Þar skrifaði hann mörg helstu meistaraverk sín, til dæmis Gamla manninn og hafið.

 

Gífurlegur þorsti.

Gífurlegur þorsti. Hemingway passaði að hafa glösin sem sjaldnast tóm.

Hemingway var orðinn auðugur maður þegar hann keypti húsið sem er stórt og líkist einna helst rétthyrndum turni. Hópur stúlkna sá um að skrúbba gólfin, halda þeim skínandi hreinum. Umhverfis húsið voru garðyrkjumenn að störfum og huguðu að fjölmörgum trjágreinum þar sem fuglar af öllum regnbogans litum flögruðu um. Hemingway átti á hverjum tíma um tuttugu ketti sem snigluðust í kringum tennisvöllinn, hnefaleikahringinn og sundlaugina. Skammt frá lá skútan Pilar við festar.

 

Hemingway var alþjóðleg stjarna og blaðamenn flykktust til Kúbu til að taka viðtöl við hann. Ljósmyndirnar af meistaranum léttklæddum á setri sínu, gjarnan með barmafullt glas í hendi, birtust í blöðum um allan heim. Myndirnar sem fylgja greininni eru nýlega komnar í almenningseigu og því þótti Lemúrnum við hæfi að birta þær.

 

Árið 1954, þegar tilkynnt var að Hemingway hefði hlotið Nóbelsverðlaunin í bókmenntum var hann staddur á Kúbu. Það þóttu mikil tíðindi fyrir landsmenn alla sem voru ákaflega stoltir af því að hýsa svo merkilegan mann.

 

Hér ræðir Hemingway við sjónvarpsmenn á Kúbu og það heyrist að hann var vel mæltur á spænsku:

Vídjó

 

Eins og Hemingway gerir í viðtalinu, var hann aldrei feiminn við að segjast vera kúbverskur. En eftir að hinar miklu hræringar kúbversku byltingarinnar árið 1959 höfðu eyðilagt vinnufriðinn fór Hemingway aftur heim til Bandaríkjanna, þar sem hann framdi sjálfsmorð skömmu síðar.

 

Yfirvöld á Kúbu eignuðust Finca Vigía eftir andlát meistarans og hafa alla tíð haldið minningu hans á lofti með því að starfrækja safn á heimili hans, líkt og Íslendingar gera með Gljúfrastein Halldórs Laxness.

 

„Gamli snillingurinn studdi olnbogunum á yztu brún barborðsins á Café Floridita. Fyrir framan sig hafði hann ískaldan rommkokteil í einu af þessum stóru glösum, sem taka um það bil einn pela. Ég hóf samræðurnar, þaðan sem ég sat, tveimur stólum innar.

 

Þremur klukkustundum síðar var Hemingway búinn að hvolfa í sig sjö af þessum geysistóru rommkokteilum í viðbót, og þegar hann yfirgaf svalan barinn og hélt út í hitabeltismolluna, sem alltaf ríkir í Havana um hádegisbilið, þá var hann með áttunda glasið í hendinni.“ Þetta eru upphafsorðin í þýddu viðtali við Ernest Hemingway á Kúbu sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins í febrúar 1959, í sama mánuði og Fidel Castro og félagar náðu völdum.

 

Castro og Hemingway.

Castro og Hemingway eftir veiðikeppni.

 

Ernest og Mary Hemingway í Finca Vigía.

Ernest og Mary Hemingway í Finca Vigía.