Vídjó

 

Traudl Junge (1920-2002) var ein af einkariturum Adolf Hitlers frá árinu 1942 og fram til dauða hans í apríl 1945. Lýsingar hennar á andrúmsloftinu í neðanjarðarbyrgi Foringjans í æviminningum hennar, Bis zur letzten Stunde (ísl. Fram að síðustu stundu), urðu undirstaða kvikmyndarinnar Der Untergang. Í bókinni segir hún einnig daglegu lífi í Berghof, heimili Hitlers í bæversku Ölpunum.

 

Á síðkvöldum hafði Foringinn þann sið að spila grammafónplötur fyrir undirmenn sína. Hann átti stórt plötusafn í Berghof, en spilaði aðallega óperettur og sönglög eftir Franz Léhar, Hugo Wolf, Strauss og að sjálfsögðu Wagner. Samkvæmt frásögn Junge hafði samstarfsfólkið takmarkaða ánægju af tónleikunum, og lét sig yfirleitt eitt af öðru hverfa úr salnum.

 

Hinar ungu stúlkur sem þjónuðu hlutverki einkaritara, Junge þar á meðal, báðu hann oftar en ekki að fá að setja dægurtónlist á grammafóninn, en slíkt vildi foringinn ekki heyra. Ekki fyrr en í lok hverra kvöldtónleika sem hann leyfði þeim að spila eitt dægurlag, ætíð það sama. Lagið var Donkey Serenade, sem birtist í Hollywoodmyndinni The Firefly árið 1937.