Berbar eru frumbyggjar Norður-Afríku. Löngu áður en herir múslima hófu innreið sína, og löngu áður en Rómverja lét sig dreyma um að nema land, var Norður-Afríka yfirráðasvæði þjóðar sem kallaði sig Amazigh („frjálsir menn‟), en við hin þekkjum sem Berba. Þeir voru hirðingjar og bændur og bjuggu við strendur Miðjarðarhafsins, í fjallgörðunum miklu í vestri og á söndum Sahara.

 

Eftir komu Araba til Norður-Afríku á sjöundu öld hafa Berbar átt undir högg að sækja, sætt fordómum og undirokun. Eftir að ríki Norður-Afríku fengu sjálfstæði lögðust þau mörg út í ‘arabavæðingu’ og tungumál og menning Berba voru í mörgum tilvikum einfaldlega bönnuð.

 

Berba er að finna flestum löndum Norður-Afríku, en í flestum tilvikum eru aðeins til óljósar tölur um fjölda þeirra í dag. Í Marokkó og Alsír er líklegt að meirihluti þjóðarinnar sé af berbískum ættum—þó margir séu rækilega arabavæddir og tali ekki lengur berbísk tungumál. Í Túnis, Líbýu og Egyptalandi eru minni Berbabyggðir; og syðra í Afríku—Máritaníu, Malí, Níger og Búrkína Fasó—búa eyðimerkurhirðingjarnir Túaregar.

 

Túaregar.

Margir binda nú vonir við að ‘arabíska vorið’ hvers vindar blása nú um Norður-Afríku geti orðið að ‘berbísku vori’. Réttindasamtök Berba hafa tekið virkan þátt í mótmælum og baráttu í Marokkó, Túnis, Alsír og Líbýu; jafnvel í Egyptalandi þar sem búa fáir Berbar hafa þeir látið til sín taka.

 

Í nýrri stjórnarskrá sem samþykkt var í Marokkó í júlí í ár er berbíska í fyrsta skipti nefnt sem eitt af opinberum tungumálum landsins, við hlið arabísku.

 

Líbýa á valdatíma Gaddafís var eitta þeirra landa sem lagði blátt bann við því að tala berbamál. Fólki var einnig bannað að bera nöfn af berbískum uppruna. Afstaða Gaddafís til Berba var flókin —  sjálfur var hann mjög hrifinn af Túaregum, sem búa í suðurhluta Líbýu. Hann studdi meðal annars uppreisnarheri Túarega gegn ríkisstjórnum Malí og Níger. Þó kallaði hann móðurmál þeirra ‘frumstætt’, og berbíska menningu ‘eitur’ sem reyndi að kljúfa Líbýu í sundur.

 

Berbar spiluðu stórt hlutverk í uppreisninni gegn Gaddafí. Þeir mynduðu eigin berbískar hersveitir, og mátti loksins heyra berbamál töluð á götum líbýskra borga eftir áratuga bann. Þeir stofnuðu berbíska útvarpsstöð og dagblað, og skreyttu veggi með graffítí á ævafornu rúnaletri Túarega. Hvort að ný yfirvöld í Líbýu reynist Berbum landsins betur er þó enn óvíst.

 

Vídjó

 

(Mynd: Berbísk börn í Líbýu fá móðurmálskennslu í fyrsta sinn.)