Aksjónhetjan Sylvester Stallone hefur ýmsa fjöruna sopið og reynt fyrir sér á ýmsum sviðum; leikið, leikstýrt, málað málverk — og nú hefur hann líka hannað penna.

 

Pennann, sem ber hið grípandi nafn Chaos, hannaði Stallone í samstarfi við Montegrappa, einn elsta og virtasta skriffæraframleiðenda Ítalíu. Sótti leikarinn innblástur í endurreisnarlistamennina Battista Franco, Albrecht Dürer, Hans Sebald Beham og Antonio Pollaiolo. Penninn á að túlka skrifarnum hugmynd Stallones um ‘kaos’, og — nú er vitnað í hönnuðinn sjálfan — gefa honum „tilfinningu fyrir Endurreisninni, þegar allt var einfaldara og kannski göfugra, ólíkt hinu nútíma tæknisamfélagi okkar.“

 

Penninn er búinn til úr ekta sterlingssilfri og í mjög takmörkuðu magni: aðeins verða framleiddir 1000 blekpennar og 912 kúlupennar, en fyrirtækið Montegrappa var einmitt stofnað árið 1912. Hver penni mun kosta rúmar 450.000 íslenskar krónur.

 

Stallone mundar pennann.

Sterlingssilfur nægir þó varla hinum sanna Stallone-aðdáenda. Einnig verða framleiddir 200 lúxus Chaos-pennar úr átján karata gulli. Ekki er tekið fram í fréttatilkynningu hvað þeir pennar muni kosta. Né heldur er verðmerking á lúxus-lúxus útgáfu pennans, sem verður ekki einungis úr átján karata gulli heldur líka skreytt eðalsteinum.

 

Enda þarf sá sem íhugar á annað borð að fjárfesta í Sylvester Stallone-penna úr skíragulli varla að spurja um verðið.

 

Áhugasömum er bent á stórkostlega heimasíðu Montegrappa, þar sem djúp hugmyndafræði aksjónhetjunnar á bak við pennahönnunina er skýrð frekar.