Myndin að þessu sinni er ansi óskýr, en lesandinn verður að taka Lemúrinn á orðinu þegar hann fullyrðir að maðurinn á bátnum er 39. forseti Bandaríkjanna og handhafi Friðarverðlauna Nóbels, Jimmy Carter, og hvíta þústin til hægri er risavaxin kanína á sundi. Myndin er tekin á bóndabæ forsetans í Georgíufylki þann 20. apríl 1979. Hann hafði tekið sér stundarfrí frá leiðtogastörfum og brugðið sér út að veiða á litla tjörn. Þá varð hann skyndilega var við að kanína synti í átt að honum — og það engin venjuleg, sæt kanína, heldur hin stórvaxna norðurameríska mýrarkanína (Sylvilagus aquaticus). Kanínan virtist sturluð, hvæsti og gnísti tönnum á sundinu og forsetinn sá ekki betur en að hún hefði í hyggju að klifra um borð í bátinn hans. En til allrar hamingju tókst honum að slá til óðrar kanínunnar með árinni, hún beygði af leið og forsetinn slapp óskaddaður.