Á myndinni sjáum við indverskan atvinnurekanda borga sárfátækum vinnumönnum sínum laun, stéttleysingjum úr hópi „hinna ósnertanlegu“. Maðurinn vill ekki snerta fólkið, því samkvæmt hefðum samfélagsins er það skítugt og lúsugt. Því vefur hann laununum í laufblöð og lætur þau falla í hendur þeirra til að forðast snertingu.

 

Myndin er ekki ný. Hún er frá sjötta áratug síðustu aldar.

 

En því miður er talið að tæplega 200 milljónir manna þurfi nú á dögum enn að lifa sem ósnertanlegt utangarðsfólk.

 

Indverska erfðastéttakerfið, sem aflagt hefur verið með lögum að mestu, var gífurlega óréttlátt þeim eru stóðu í neðstu þrepum þess. Meðferðin á „hinum ósnertanlegu“ hefur verið lýst sem einni skelfilegustu birtingarmynd haturs í heiminum.

 

Í erfðastéttakerfinu voru fjórar meginstéttir, Brahmina, Ksatrya, Vasaya og Sudra. Fimmta hópinn myndaði svo utangarðsfólk sem fékk enga stöðu í þjóðfélaginu, og nefnt var „hinir ósnertanlegu“.

 

Hinir ósnertanlegu unnu öll skítugustu störfin á Indlandi, við mikla mengun, óhreinindi og hættu. Um þá giltu svipaðar reglur og í þjóðfélögum aðskilnaðar á milli kynþátta því hinir ósnertanlegu máttu ekki nota sömu vatnslindir og fólkið úr meginstéttunum og þurftu jafnvel að búa í sérstökum hverfum og þorpum – aðskildir frá „þjóðfélaginu“.

 

Og eins og liggur í orðanna hljóðan vildi fólk alls ekki snerta hina ósnertanlegu.

 

En þó að kerfið hafi verið afnumið með lögum er það langt frá því horfið úr indversku samfélagi.

 

„Erfðastéttakerfið á Indlandi hefur verið afnumið með lögum og eru öllum þegnum lýðveldisins ætlaðar sömu skyldur og sömu réttindi. Ghandi, sem hvað ríkastan þátt átti í að Indland varð sjálfstætt ríki, endurskoðaði marga forna siði og hugmyndir, og barðist fyrir afnámi erfðastéttakerfisins og taldi það undirrót margs ills. Þetta kerfi, sem staðið hefur óhaggað um þúsundir ára, er þó flóknara en svo að hægt sé að afnema það með einu pennastriki. Þjóðfélagið allt er gagnsýrt hugmyndum sem tengjast erfðastéttunum og mannlegum samskiptum sem byggjast á því. Þess vegna er erfitt að vita hvenær skuli notuð nútíð og hvenær þátíð þegar fjallað er um erfðastéttir á Indlandi,“ skrifar Haraldur Ólafsson mannfræðingur á Vísindavefnum.
Hér er myndband frá Sameinuðu þjóðunum um hina ósnertanlegu. Áætlað að er að 170 milljónir manna teljist enn til þeirra, fólks sem alið er upp í þeirri trú að það sé minna virði en aðrir, óæðri verur.

Vídjó