Saif al-Islam Gaddafí, sonur Líbýuleiðtogans sáluga, er sem stendur einhverstaðar í Níger á flótta. Á velmektardögum föður hans sá Saif um almannatengsl líbýsku stjórnarinnar, en líkt og faðirinn (sem skrifaði smásögur) var hann listrænn og málaði málverk í gríð og erg. Málverk Saifs hafa af og til birts á sýningum á líbýskri list, aðallega í löndum sem voru hliðholl stjórnar föður hans. Vefsíðan Boing Boing tók nýlega saman þær fáu myndir af verkum Saifs sem finna má á internetinu.

 

 

Málverkið hér að ofan heitir Áskorunin. Höfundur greinarinnar á Boing Boing stingur upp á að verurnar þrjár til vinstri séu krossfarar, sem verið sé að brenna. Yfir eldrauðu sólarlaginu svífur faðir listamannsins, Leiðtoginn Muammar Gaddafí, alvarlegur á svip. Einnig má sjá móta fyrir útlínum risavaxins arnar. Hvað merkir þetta? Ritari Langtíburtistans er ekki vel að sér í nútímalist og því ekki fær um að segja til um það.

 

Þetta málverk heitir Eyðimörkin er ekki þögul. Á þessu flókna verki má meðal annars sjá byggingu í hefðbundnum stíl líbýsku eyðimerkurinnar, svo og skepnur sem líkjast forsögulegum steinristum í Akakus-fjöllum.

ِEyðimörkin og hin forna menning Norður-Afríku virðist vera áberandi þema í verkum Saifs. Hér er listamaðurinn sjálfur á sýningu á verkum sínum sem haldin var í Moskvu. Verkið heitir Sól vinarinnar og virðist sýna einhverskonar faraóa eða Fornegypta.

Önnur ljósmynd af sýningunni í Moskvu. Verkið er frá 2001 og ber heitið Ókláraður köttur.

 

Fleiri verk eftir einræðissoninn listræna má finna á BoingBoing.com.