Það getur verið strembið að afla sér erlends gjaldeyris þegar maður sætir viðskiptabanni frá Sameinuðu þjóðunum. Það veit Kim Jong-il, hinn Kæri leiðtogi Norður-Kóreu, af eigin raun. Kim og kónar hans hafa gripið til ýmissa misjafna ráða til þess að hala inn gjaldeyri, svo sem framleiðslu á fölsuðum lúxusvarningi og eiturlyfjasmygl.

 

Nýjasta úrræði þeirra er öllu sakleysislegra. Suðurkóresk yfirvöld halda því fram að kollegar þeirra í norðri haldi út sérþjálfuðum her ungra hakkara og tölvusérfræðinga. Hlutverk þeirra er að safna gulli eða stigum í multiplayer-netleikjum, sem síðan eru seld yfir landamærin til suðurkóreskra tölvuleikjasjúklinga fyrir alvöru peninga.

 

Samkvæmt rannsóknum suðurkóresku lögreglunnar skipa þrjátíu ungir menn tölvuleikjaher Kim karlsins. Þeir hafa notfært sér veikleika í vinsælum kóreskum netleikjum eins og Lineage og Dungeon & Fighter til þess að láta ómannaðar tölvur spila átómatískt allan sólarhringinn og raka inn sýndargulli. Talið er að Norður-Kórea hafi unnið sér inn að minnsta kosti sex milljónir dollara með þessum hætti.