Margfræg er kenningin um að ef óendanlegur fjöldi apa situr við ritvélar og slær af handahófi á takkana muni þeir að lokum skila af sér heildarverki Shakespeares.  Kenningunni er að sjálfsögðu eingöngu ætlað að vera skemmtileg myndlíking fyrir líkindareikning – tilgáta um líkindi en ekki líkleg tilraun.
 
Miðað við hvað þessi kenning um rithæfileika apa er lífseig kemur það á óvart að ritsnilld katta hafi ekki notið sömu hylli. Hver sá sem hefur verið þeirrar gæfu aðnjótandi að vera sambýlingur hugsuðar af gerðinni felis catus veit að undir sakleysislegu og loðnu yfirborðinu fara fram djúpspekilegar vangaveltur um hin hinstu rök tilverunnar. Hvernig má annars skýra þá tilhneigingu katta að trítla sífellt yfir lyklaborð tölva okkar mannapanna?
 
Einhverra hluta vegna heillast kettir  frekar af lyklaborðinu heldur en músinni – oft með miður skemmtilegum afleiðingum fyrir skjöl og forrit sem eru opin á tölvunni. Þegar ketti systur forritarans Chris Niswander tókst að rústa tölvu hennar með nokkrum vel völdum loppustrokum einsetti Niswander sér að skapa forrit sem komið gæti í veg fyrir hryðjuverk þessara ferfættu skaðvalda á mikilvægum skjölum.
 
Þannig kom forritið PawSense til skjalanna – og til verndar skjalanna. Forritið nemur ef að innslög á lyklaborðið samsvara ekki fingraslögum mannanna – til að mynda ef ýtt er á fleiri en einn hnapp í einu. Niswander þurfti að ákveða hversu  marga takka þyrfti að þrýsta á í einu svo það gæti ekki talist mannlegur innsláttur. Hann mældi því loppustærð kattanna í nágrenni sínu og færði þær upplýsingar inn í PawSense.
 

Kæra dagbók, mjá mjá mjá...

Þegar forritið nemur að innsláttur sé á skjön við mannlega notkun lokar það fyrir frekari boð frá lyklaborðinu þar til að orðið human er slegið inn. Upp kemur  viðvörun þess eðlis að nærvera kattar hafi verið skynjuð og óhljóð sem fara sérstaklega illa í ketti eru spiluð til þess að hrekja þá brott. Hægt er að velja um nokkrar upptökur til að fæla burt kattarskömmina – þar á meðal sturlaðan munnhörpuleik. Með þessari skilyrðingu eiga kettirnir að læra að hunsa skáldadrauma sína.
 

Fyrir þetta framtak sitt í baráttunni gegn tjáningafrelsi katta hlaut Chris Niswander Ig Nobel verðlaunin árið 2000, en þau eru bandarísk grínverðlaun sem veitt eru furðulegum eða hlægilega léttvægum rannsóknum eða uppgötvunum. Árið 2005 nefndi Chris Niswander í viðtali að hann hefði áhuga á að gera forrit sem gæti numið ef ungabarn væri að fikta í lyklaborðinu – BabySense – en því miður hefur ekkert bólað á því hingað til.