Vídjó

Blóðugar myndir og myndbandsupptökur af síðustu andartökum líbýska einræðisherrans Muammars Gaddafí ganga nú manna á milli á internetinu. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem alþjóð fær að fylgjast með, svo að segja í beinni útsendingu, aftöku hataðs einræðisherra af hendi fyrrverandi þegna sinna.

 

Í desember 1989 gerðu Rúmenar uppreisn gegn forsetanum Nicolae Ceaușescu sem ríkt hafði yfir landinu í 24 ár. Ceaușescu og eiginkona hans Elena voru handtekin er þau reyndu að flýja land. Þau voru færð fyrir málamyndadómstól sem dæmdi þau bæði til dauða fyrir margvíslega glæpi gegn rúmensku þjóðinni. Dauðadómnum var snarlega framfylgt. Eftir að ‘dómstóllinn’ kvað upp dóm sinn leiddu fjórir hermenn gömlu hjónin — Nicolae var 71 árs, Elena 73 ára — út undir húsgafl og skutu þau.

 

Réttarhöldin og aftakan voru tekin upp á myndband, sem sjá má hér að ofan. Þetta er bútur úr heimildarmynd BBC um rúmensku byltinguna. Líkt og Gaddafí virðast Ceaușescu-hjónin ekki gera sér neina grein fyrir því, hvers vegna fólkinu sé illa við þau og hvers vegna eigi að taka þau af lífi. Elena Ceaușescu rífur kjaft við hermennina: „Skammist ykkar! Ég sem hef verið ykkur eins og móðir!“

 

Síðustu orð Gaddafís ku hafa verið svipuð — hann kallaði uppreisnarhermennina „syni sína“ og biðlaði til þeirra að skjóta sig ekki, hann væri „faðir þeirra“.

 

Nicolae og Elena Ceauşescu gæða sér á kræsingum á kostnað rúmensku þjóðarinnar, 1981.