Vídjó

Í júlí 1939 skrifaði indverska sjálfstæðishetjan Mahatma Gandhi bréf til Adolfs Hitler Þýskalandskanslara sem hafði ráðist inn í Tékkóslóvakíu þá um vorið. Í bréfinu hvetur Gandhi kanslarann til þess að falla frá ofbeldi, og ávarpar hann Kæri vinur.  Hann skrifaði síðar annað svipað bréf, en hvorugt komst til kanslarans og eru þau nú til sýnis á safni í Mumbai.

 

Indverska kvikmyndaleikstjóranum Rakesh Ranjan Kumar voru bréfin innblástur að nýjustu mynd sinni, sem ber einmitt titilinn Dear Friend Hitler eða “Hitler, kæri vinur”, og var frumsýnd í Indlandi síðla sumars.

 

Myndin fjallar annarsvegar um Gandhi og fylgismenn hans í friðsamlegri baráttu þeirra fyrir sjálfstæði Indlands, og hinsvegar — og rétt eins og hin vinsæla Der Untergang — síðustu daga Hitlers í valdastól þar sem hann húkir ofan í neðanjarðarbyrgi sínu með Evu Braun sér við hlið. Indverskir leikarar fara með öll hlutverk í myndinni, Hitler sjálfur er leikinn af Raghubir Yadav.

 

Vídjó

 

Eins og tíðkast í Bollywood eru dans- og söngatriði í myndinni, en skilst Lemúrnum að blessunarlega séu þau atriði einungis í þeim hluta myndarinnar sem gerist í Indlandi, Hitler sjálfur bresti ekki í söng.

 

Hitler er umdeild persóna í Indlandi eins og annarstaðar. En margir Indverjar þykja hafa lítinn skilning á sögu seinni heimsstyrjaldar og líta á Hitler sem aðdáunarverða persónu af einhverjum ástæðum. Til að mynda selst Mein Kampf árlega í tugþúsundum eintaka þar í landi.

 

Raghubir Yadav og Neha Dhupia í hlutverkum sínum sem Hitler og Eva Braun, sem í myndinni er ætíð kölluð „Eva Brown“.

 

Þegar Dear Friend Hitler var tilkynnt upphaflega sagði leikstjórinn hana eiga að fjalla um “ást Hitlers á Indlandi” og “óbeint framlag” Foringjans til sjálfstæði Indlands. Þetta féll ekki í nógu góðan jarðveg og mótmæltu indverskir Gyðingar og fleiri hópar því harðlega að Hitler yrði sýndur í jákvæðu ljósi. Að lokum voru gerðar breytingar á myndinni og fullyrðir leikstjórinn nú að hún eigi að sýna yfirburði friðsamlegrar baráttu Gandhis yfir hinn ofbeldishneigða Hitler. Í atriðinu hér að ofan sést indverski Hitler einmitt hreyta út sér: „Ég vil auga fyrir auga!“

 

Þrátt fyrir þessar breytingar hefur myndin þó fengið nær einróma slæma dóma hjá gagnrýnendum og þykir sýna yfirgengilega vanþekkingu á mannkynsögunni.