Vídjó

Hér sjáum við ferðalang í Ekvador gæða sér á grilluðum naggrís. Naggrísir eru upphaflega ættaðir frá Bólivíu, Perú, Ekvador og nærliggjandi löndum þar sem þeir lifðu í grasivöxnum hlíðum.

 

Þeir teljast til elstu húsdýra mannsins en talið er að naggrísir hafi fylgt fólki í fyrrnefndum löndum í þúsundir ára. Inkarnir voru með dýrin í húsum sínum og ræktuðu til átu. Spánverjar fluttu naggrísi til Evrópu á sextándu öld og þaðan bárust þeir um allan heim. Einhverra hluta vegna eru naggrísir þó ekki étnir á Vesturlöndum eins og gert er á vissum stöðum í Suður-Ameríku.

 

Vísindavefur Háskóla Íslands er fullur af fróðleik um naggrísi:

 

„Kunnasta tegund naggrísa er að öllum líkindum villinaggrísinn (Cavia aperea). Hann er þéttvaxinn og frekar klunnalegur með stutta fætur þó afturlappir séu nokkuð lengri en framfæturnir. Útbreiðsla hans er mun meiri en annarra tegunda ættarinnar og nær frá norðurhluta Argentínu yfir sunnanverða Brasilíu, vestur yfir Perú og norður til Venesúela og Gvæjana. Villinaggrís gýtur oft tvisvar á ári og þá einum til fjórum ungum í hvert sinn. Meðgöngutíminn er um tveir mánuðir og ná ungarnir kynþroska 55 til 70 daga gamlir.

 

Önnur kunn tegund naggrísa er andesfjalla-naggrísinn (Cavia tschudii) sem ólíkt öðrum tegundum ættarinnar lifir hátt til fjalla, allt upp í 4000 metra hæð. Feldur hans er mun þykkari en feldur annarra naggrísa. Flestir dýrafræðingar telja að hann sé hinn villti forfaðir tömdu naggrísanna sem finnast nú víðs vegar um heiminn, en Inkar nýttu andesfjalla-naggrísinn mjög vegna hlýs feldarins. Sennilega hefur hann borist þaðan til gamla heimsins með Spánverjum og með tímanum hefur orðið til ný tegund sem nefnist á fræðimáli Cavia porcellus. Auk þess að vera vinsælt gæludýr er tamdi naggrísinn mikið notaður við tilraunir á rannsóknastofum.

 

Naggrísir hafa lengi verið ræktaðir af mönnum. Þegar Spánverjar komu til Perú á 16. öld tóku þeir eftir því að Inkar ræktuðu naggrísi bæði vegna feldarins og kjötsins, og sennilega hafa menn gert það síðan þeir tóku fasta búsetu á þessum svæðum fyrir um 3000 árum. Víða í Perú, Ekvador og Venesúela eru naggrísir enn þann dag í dag hafðir sem húsdýr.“