Egyptinn Mohammed Bishr var á leið heim af kaffihúsi í miðbæ heimaborgar sinnar Alexandríu þegar hann var skyndilega umkringdur þremur mönnum í svörtum jakkafötum. Mennirnir voru vopnaðir skammbyssum og reyndu að neyða hann inn í sendiferðabíl. Í handaganginum rak Bishr höfuðið í bílinn og missti meðvitund. Svartklæddu mennirnir urðu felmtraðir, skyldu Bishr eftir rotaðan í götunni og keyrðu á brott í sendiferðabílnum.

 

Bishr, sem nú liggur á sjúkrahúsi að jafna sig, er ekki í neinum vafa um hvað lá að baki árásinnar — útlit hans. Mohammed Bishr þykir sláandi líkur fyrrverandi forseta Íraks, Saddam Hussein.

 

Fáeinum dögum fyrir árásina hafði hópur írakskra manna haft samband við Bishr. Þeir buðu honum 2 milljónir egypskra punda (39 milljónir íslenskra króna) fyrir að leika Saddam í klámmynd. Bishr neitaði. Þá segir hann mennina hafa hótað að ræna sér og neyða sig að leika í myndinni.

 

Bishr jafnar sig á sjúkrahúsi í Alexandríu.

 

Bishr greyið er vanur því að lenda í veseni sökum útlitsins. Á fyrstu mánuðum Íraksstríðsins hafi fólk ráðist á Bishr á götum úti, haldandi hann Saddam og ætlað að færa hann Bandaríkjunum fyrir verðlaunafé. Hann hafi þurft að flytja fjórum sinnum vegna þessa ofsókna. Einnig hafi myndir af honum birtst í fjölmiðlum sem “sönnun” á því að Saddam hafi aldrei verið tekinn af lífi heldur gangi enn laus.

 

Washington Post sagði frá því í fyrra að bandaríska leyniþjónustan CIA hafi, í aðdraganda Íraksstríðsins 2003, reynt að grafa undan Saddam Hussein með ýmsum leiðum. Meðal áforma þeirra var að framleiða og dreifa fölsuðu myndbandi sem sýndi Íraksforsetann stunda kynlíf með unglingspilti. Ekkert varð þó af þessu.