Árið 1961 var tónskáldið og anarkistinn Léo Ferré staddur á tónleikum ásamt eiginkonu sinni Madeleine. Á dagskránni það kvöld var meðal annars skemmtiatriði flutt af Marquis fjölskyldunni, sem var hópur af þjálfuðum simpönsum.

 

Ferré hreifst svo af þessum viðkunnanlegu skepnum að hann keypti eina apynjuna að sýningunni lokinni. Þessi óvenjulega viðbót við Ferré fjölskylduna nefndist Pepée, þótt Léo kallaði hana oft dóttur sína og kæmi fram við hana eins og hans eigið barn.

 

Næstu árin voru tónskáldið og apynjan óaðskiljanleg; hann tók hana með sér á kaffihús (þar sem hún þekkti ekkert betra en að dýfa banana ofan í glas af Cahors rauðvíni), hún var við hlið hans utan á umslagi hjómplötu árið 1962 og hann lét undirskrift Pepée fylgja á boðskortum sem hann sendi út.

 

Á þessum tíma er ferill Ferré að ná nýjum hæðum, þökk sé ekki aðeins vinsældum frumsamdra verka hans, auk tónlistar sem hann flytur við ljóð Baudelaire, Rimbaud og Aragon – heldur ekki síst umboðshæfileikum eiginkonu hans, Madeleine. Eftir röð af farsælum tónleikum, hljómplötum og viðtölum ákváðu þau að setjast að í sveitasælu bæjarins Perdrigal, í Lot-héraði.

 

Þar bættist heldur betur í flóru gæludýra hjónanna og þegar mest var mátti finna á sveitasetri þeirra tíu hunda, fjörutíu kindur, fimm simpansa, einn smáhest, sjö kýr, nautið Arthúr, svínið Baba, geitina Móses – auk óteljandi fjölda katta. Sú ákvörðun hjónanna að einangra sig í sveitinni tók sinn toll á samlífi þeirra.

 

Eftir nokkur ár er hjónabandið í andaslitrunum og Madeleine fréttir að Ferré hafi kynnst annarri konu, Marie-Christine. Þegar Ferré snýr ekki aftur heim eftir tónleikaferð, biður Madeleine veiðimann frá nærliggjandi bæ að farga öllum dýrunum á bænum. Sunnudagseftirmiðdegið 7. apríl 1968 lýkur ævi apynjunnar Pepée með byssukúlu í höfuðið. Léo Ferré er eyðilagður maður og semur lagið Pepée á hótelherbergi í Vannes.

 

Vídjó

 

Í laginu er fallegt og skondið myndmál – í textanum segir meðal annars að hjarta Pepée hafi slegið sem lítil tambúrína – og svo gerir Ferré góðlátlegt grín á kostnað Serge Gainsbourg, þegar hann segir að þau hafi bæði álíka útstæð eyru, þótt Pepée hafi reyndar ekki haft jafnmikla þörf á viskí og lífsnautnaseggurinn Gainsbourg.

 

Sjálft lagið ber söknuði Léo til Pepée skýran vitnisburð – í tregafullum söng hans og einstakri útsetningu á strengjasveit sem virðist vera að springa úr harmi. Ein fegursta sálumessa sem samin hefur verið er eftir trúleysingja og er tileinkuð simpansa.