Júlíus Neubronner var þýskur apótekari er starfaði í Frankfurt á fyrstu árum tuttugustu aldarinnar. Hann notaði bréfdúfur til að flytja til sín lyfseðla frá sjúkrahúsi í grenndinni.

 

Í einni sendiferðinni villtist dúfa af leið í þoku og skilaði sér ekki til Neubronners fyrr en fjórum vikum síðar. Apótekaranum datt þá í hug að sameina eftirlætis tómstundaiðjur sínar – ljósmyndun og dúfnarækt – með því að festa sjálfvirkar myndavélar við dúfurnar til að fylgjast með ferðum þeirra.

 

Hann batt léttar smámyndavélar við brjóst þeirra með þunnri ól . Í framhaldinu þurfti að þjálfa dúfurnar vandlega svo þær gætu vanist aðskotahlutnum.

 

Þegar Júlíus Neubronner var loks tilbúinn sleppti hann fuglum sínum í allt að 100 km fjarlægð frá apótekinu. Dúfurnar flýttu sér oftast heim, í beinni línu í 50-100 metra hæð og flugu á 15 km hraða á klukkustund. Loftknúinn búnaður í myndavélinni stjórnaði hvenær smelltist af.

 Loftmyndir eftir dúfur

 

Loftmyndir nýtt fyrirbæri

Loftmyndir voru sjaldgæfar á þessum tíma og voru heillandi og nýstárlegt fyrirbæri. Ljósmyndun og flug voru hvort um sig nýjar uppfinningar. Wright-bræður höfðu ekki enn þá flogið fyrstu flugvél sögunnar þegar Neubronner hóf að láta dúfurnar sjá um ljósmyndunarstarfið.

 

Að vísu höfðu loftmyndir verið teknar í loftbelgjum, flugdrekum og fallhlífum en sænski vísindamaðurinn Alfred Nobel er sagður hafa tekið loftmyndir með myndavélum sem hann festi við litlar eldflaugar árið 1897.

 

Aðferð Neubronners var byltingarkennd og árangursrík. Hann þróaði á ýmsa vegu myndavélarnar og filmurnar sem hann festi á dúfurnar og sýndi á ráðstefnum og sýningum víða í Evrópu. Fékk Neubronner apótekari einkaleyfi á uppfinningu sinni „Aðferðir og leiðir til að taka myndir af landslagi að ofan“ árið 1908.

 

Ári síðar hlutu ljósmyndirnar mikið lof á sýningum í Dresden, Frankfurt og París. Neubronner var himinlifandi með viðbrögðin og sökkti sér í þróun fleiri smámyndavéla og örfilma og frekari dúfnaþjálfun til að fullkomna tæknina.

 

Dúfa í réttstöðu

 

Vildi senda vængjuðu myndsmiðina í stríð

Árið 1914 braust fyrri heimsstyrjöldin út og helltust Þjóðverjar, eins og lesendur vita, strax út í gríðarlega umfangsmikinn hernað. Júlíusi Neubronner datt í hug að hermálayfirvöld gætu notað dúfuljósmyndatæknina.

 

Herforingjar voru hikandi. Jú, hugmyndin var góð, en ýmis tæknileg atriði vöfðust fyrir þeim. Erfiðasti þröskuldurinn var að dúfur eru í eðli sínu heimakærar verur og þola illa að skipta um dúfnakofa nema þeim sé gefinn góður tími til undirbúnings.

 

Hvernig væri þá hægt að nota dúfur á vígvelli, láta þær taka myndir og senda þær svo annað? Það eru hvergi dúfnakofar í stríði, hugsuðu herforingjarnir.

 

Lausnin var snilldarleg. Neubronner kom fram með dúfnakofa á hjólum þar sem einnig var myrkraherbergi í dúfnastærð til framköllunar. Ringulreið stríðsins kom þó í veg fyrir að dúfur Neubronners tækju myndir í bardögum. Enda var tæknin nokkuð flókin í notkun. Hins vegar voru færanlegu dúfnakofarnir notaðir fyrir bréfdúfur í orrustunum um Verdun og Somme.

 

Sagt var að Neubronner hefði á endanum verið mjög vonsvikinn maður. Hann skildi ekki hvers vegna áhugi heimsins á dúfuloftmyndatækninni hafði ekki verið meiri. Hann lést árið 1932.

 

Dúfnamars